Innlent

44 verslanir opnar allan sólarhringinn

Verslunum, sem hafa opið allan sólarhringinn, hefur fjölgað mikið á síðustu misserum. Í sumar verða 44 verslanir opnar allan sólarhringinn, 30 matvöruverslanir, þrettán bensínstöðvar og ein önnur verslun. Flestar slíkar verslanir eru á höfuðborgarsvæðinu eða 36 talsins en átta eru á landsbyggðinni.

Á síðustu tólf mánuðum hafa fimm matvöruverslanir og þrjár bensínstöðvar tekið tekið upp á því að hafa opið allan sólarhringinn. Að auki verða tvær bensínstöðvar opnar allan sólarhringinn tímabundið í sumar.

Verslanir 10-11 eru mest áberandi í hópi sólarhringsverslana en alls eru reknar 22 verslanir undir nafni 10-11 sem eru opnar allan sólarhringinn. Íbúar í póstnúmeri 108 eru sérstaklega vel í sveit settir en í póstnúmerinu eru sex þessara verslana. Það gerir eina verslun á hverja 2.013 íbúa.

Á landsbyggðinni eru sex matvöruverslanir opnar allan sólarhringinn auk tveggja bensínstöðva sem eru þó eingöngu með sólarhringsopnun í sumar. Þrjár verslananna eru á Akureyri, tvær í Leifsstöð og ein í Keflavík. Að auki eru bensínstöðvar á Selfossi og í Staðarskála opnar allan sólarhringinn í allt sumar.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir ljóst að verið sé að auka útgjöld neytenda. „Það er ljóst að þarna er verið að auka útgjöld þegar meiri þörf er á því að draga úr þeim og lækka vöruverð þannig að við höfum efasemdir um þennan langa opnunartíma og óttumst að þetta leiði til hækkunar á vöruverði," segir Jóhannes.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, er ekki á sama máli. „Við lítum þannig á að það sé hverju fyrirtæki í sjálfsvald sett að ákveða þetta. Það eru engar reglur til um opnunartíma þannig að ef fyrirtæki sjá sér hag í því, telja að það sé markaður fyrir þennan langa opnunartíma, þá er það bara hið besta mál og veitir neytendum frábæra þjónustu."

Verslanir Select riðu á vaðið með að hafa opið allan sólarhringinn, árið 1997 við Suðurfell og Vesturlandsveg. Af matvöruverslunum var Samkaup við Borgarbraut á Akureyri fyrst til að hafa opið allan sólarhringinn, frá því í júlí 2005.

magnusl@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.