Innlent

Afnám verðtryggingar ekki lausn á vanda skuldugra

Viðskiptanefnd Alþingis heldur opinn fund í dag til að ræða um verðtrygginguna. Gylfi Magnússon verður meðal gesta.
Viðskiptanefnd Alþingis heldur opinn fund í dag til að ræða um verðtrygginguna. Gylfi Magnússon verður meðal gesta.
Ólíklegt er að breytingar á fyrirkomulagi verðtryggingar gætu á þessu stigi mála leitt til snöggs viðsnúnings hjá einstaklingum í skuldavanda, segir í niðurstöðum nýrrar skýrslu sem nefnist „Verðtrygging á Íslandi: kostir og gallar“. Hverfi verðtryggingin hækka vextir á móti.

Skýrslan er unnin fyrir efnahags- og viðskiptaráðherra og er aðgengileg á vef ráðuneytisins. Ráðherra verður svo gestur viðskiptanefndar Alþingis á opnum fundi í dag þar sem rætt verður um verðtrygginguna.

„Íslensk heimili finna mjög fyrir neikvæðum áhrifum af verðtryggingu á húsnæðislán sem hafa hækkað mikið undanfarið, bæði greiðslubyrði og höfuðstóll. Til að bæta gráu ofan á svart þá hefur verð fasteigna lækkað í verði,“ segir í skýrslunni, sem unnin var af Öskum Capital. Þó segir þar að leitast megi við að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Ekki sé þó sjálfgefið að breytt fyrirkomulag leiði til betri útkomu.

Verðtrygging sparnaðar í gegnum lífeyrissjóðakerfið er óneitanlega sögð kostur fyrir heimilin. „Í verðtryggðum lánum felst einnig sá kostur að lánað er fyrir vöxtum og verðbótum, þeim er bætt við höfuðstólinn. Greiðslubyrði er jafnari með hefðbundnu, verðtryggðu jafngreiðsluláni með föstum vöxtum en að öllu jöfnu á óverðtryggðu láni. Þá felst öryggi í verðtryggingu við skilyrði verðhjöðnunar.“ Helstu ókostirnir við verðtryggingu eru sagðir hækkandi höfuðstóll og þar með hækkandi veðhlutfall fasteigna og aukning greiðslubyrði. Sömuleiðis er bent á að greiningaraðilar hafi kerfisbundið vanspáð verðbólgu. „Á þeim grundvelli má halda því fram að heimilin hafi tekið á sig alla áhættu varðandi verðbólguþróun.“

Fram kemur að verðtrygging sé almennari hér á landi en víðast annars staðar, en hana sé helst að finna í löndum sem búi við óstöðugan, lítinn gjaldmiðil og mikla verðbólgu.

Ekki er talið fýsilegt að banna verðtrygginguna, en sé vilji til að auka vægi óverðtryggðra lána og fjárfestingarkosta væri ef til vill eðlilegt að ríkið hefði forgöngu í þeim efnum og yki óverðtryggða útgáfu sína.

Þá segir í skýrslunni að við fyrstu sýn virðist ekkert benda til þess að afnám verðtryggingar þyrfti að fylgja upptöku evru. „Hins vegar er ljóst að stöðugri gjaldmiðli fylgir minni þörf fyrir verðtryggingu í því skyni að auka trúverðugleika hagstjórnar.“

olikr@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×