Innlent

Bucheit: Enginn ætti að hagnast á Icesave málinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það var ágreiningur um vaxtakjör sem leiddi til þess að upp úr Icesave viðræðum slitnaði í vikunni, segir Lee Buchheit, formaður samninganefndar Íslands, í samtali við vef Telegraph í kvöld. Hann segir að enginn aðili deilunnar ætti að láta sér detta það til hugar að þeir muni hagnast á henni.

Bretar og Hollendingar hafa boðið tvö vaxtalaus ár. Eftir það verði breytilegir, svokallaðir Libor vextir, með 2,75% álagi. Íslendingar höfnuðu því tilboði.

„Íslendingar telja að Bretar og Hollendingar eigi að fá endurgreidda þá fjármuni sem þeir hafa lagt út vegna Icesave, þannig að enginn hagnist en þeir geti jafnframt sagt að enginn hafi tapað fjármunum," sagði Bucheit við Telegraph.

Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins sagði hins vegar að bresk og hollensk stjórnvöld hefðu boðið lánaskilmála sem styddu við efnahagslegan bata á Íslandi og drægju úr byrðum fyrir íslenska skattgreiðendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×