Innlent

Icesave-nefndin tómhent heim

Fundi samninganefndar Íslands og fulltrúa Hollendinga og Breta í London í gær lauk án niðurstöðu. Bretar og Hollendingar segjast ekki geta teygt sig lengra til móts við Íslendinga en með tilboði sínu frá því í síðustu viku.

Íslenska samninganefndin undir forystu Lee C. Buchheit mun í dag funda með formönnum stjórnmálaflokkanna og gera þeim grein fyrir stöðunni.

Hvorki náðist í forystumenn ríkisstjórnarinnar í gærkvöldi né formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Í yfirlýsingu frá Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra segir að vonast hafi verið til að sameiginleg niðurstaða um bætt kjör í Icesave-málinu næðist.

„Það hefur enn ekki tekist. Báðir aðildar lögðu fram uppbyggilegar tillögur en enn greinir þjóðirnar töluvert á."

Í yfirlýsingu ráðherrans er sérstaklega minnt á að þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave verði 6. mars.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins líta íslenskir ráðamenn svo á að viðræðurnar hafi alls ekki siglt í strand.

Í yfirlýsingu talsmanns breska fjármálaráðuneytisins segir að niðurstaðan sé Englendingum og Hollendingum vonbrigði. „Bresku og hollensku ríkisstjórnirnar eru vonsviknar með að þrátt fyrir að þær hafi reynt sitt besta síðastliðið eitt og hálft ár séu íslensk stjórnvöld enn ófær um að ganga að þeirra besta tilboði varðandi Icesave-lánið," segir í yfirlýsingu talsmannsins. Hann ítrekar að menn séu enn ákveðnir í ná samkomulagi við Ísland um féð sem hollenskir og breskir skattgreiðendur eigi inni hjá Íslendingum.

Fréttaveita Bloomberg hafði í gærkvöldi eftir ónafngreindum heimildarmanni í breska fjármálaráðuneytinu að íslenska samninganefndin hefði gengið af fundi.

„Þetta er alrangt og búið að biðja breska fjármálaráðuneytið um að leiðrétta þetta," segir Guðmundur Árnason, sem situr í íslensku samninganefndinni. „Fundurinn fór enda fram í íslenska sendiráðinu og okkur hefði aldrei dottið í hug að skilja þá eftir þar." - bþs, gar

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.