Rúnar Kristinsson mun halda áfram með KR-liðið en hann skrifaði undir þriggja ára samning í kvöld. Þetta kom fram á heimasíðu KR.
Það kom líka fram í frétt á heimasíðu KR að Pétur Pétursson verður áfram aðstoðarþjálfari hjá mfl. og þjálfari 2. fl. karla.
Rúnar tók við þjálfun liðsins af Loga Ólafssyni 19. júlí í sumar. KR var í 9. sæti Pepsi-deildarinnar þegar hann tók við og það endaði í 4. sæti sem gefur þátttökurétt í Evrópudeild UEFA á næsta ári.
KR lék þrettán deildar- og bikarleiki undir stjórn Rúnars, sigraði í átta leikjum, gerði eitt jafntefli en tapaði fjórum. Markatalan var 31-20.
KR-liðið fór líka alla leiðina í bikarúrslitaleikinn þar sem liðið þurfti að sætta sig við 0-4 tap á móti FH.
