Enski boltinn

Zaki farinn frá Hull

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Amr Zaki í leik með Hull í vetur.
Amr Zaki í leik með Hull í vetur. Nordic Photos / Getty Images

Amr Zaki hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Hull í ensku úrvalsdeildinni en stjórinn Iain Dowie hefur sent hann aftur til Egyptalands.

Zaki var í láni hjá Hull frá egypska félaginu Zamalek en hann kom til Englands í janúar síðastliðnum.

„Hann meiddist í undirbúningnum fyrir fyrsta leik minn hjá Hull og síðan þá hefur hann ekki verið í nægilega góðu formi," sagði Dowie sem tók við Hull í upphafi síðasta mánaðar.

„Ég skoðaði hann svo á æfingu um daginn og sá að hann var ekki nálægt því að vera tilbúinn. Ég sagði að það væri því tími kominn til að hann færi aftur heim," bætti hann við.

Zaki lék einnig í ensku úrvalsdeildinn í fyrra og þá sem lánsmaður hjá Wigan. Hann sló í gegn í upphafi leiktíðar og skoraði fimm mörk í fyrstu fimm leikjum sínum. En hann var fljótur að koma sér í ónáð hjá Steve Bruce, þáverandi stjóra liðsins, og hefur ekki skorað á Englandi síðan í desember 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×