Enski boltinn

Burnley fallið úr ensku úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard fagnar öðru marka sinna gegn Burnley í dag.
Steven Gerrard fagnar öðru marka sinna gegn Burnley í dag. Nordic Photos / Getty Images

Liverpool vann í dag 4-0 sigur á Burnley í ensku úrvalsdeildinni en þar með varð ljóst að síðarnefnda liðið er fallið úr deildinni.

Þá vann Everton nauman 2-1 sigur á Fulham á heimavelli sínum en sigurmarkið skoraði Mikel Arteta úr vítaspyrnu á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Liverpool er enn í sjöunda sæti deildarinnar eftir sigurinn á Burnley en aðeins tvö stig skilja að liðin í 4.-7. sæti.

Tottenham og Aston Villa eru bæði með 64 stig, Manchester City er með 63 og Liverpool 62. Tottenham og City eiga þó leik til góða.

Markalaust var í hálfleik en Steven Gerrard skoraði tvívegis á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiksins. Maxi Rodriguez bætti því þriðja við á 74. mínútu og Ryan Babel innsiglaði svo sigurinn með marki í uppbótartíma.

Fyrra mark Gerrard kom eftir að skot hans breytti um stefnu á Leon Cort, varnarmanni Burnley, og hafnaði í netinu. Síðara markið kom svo eftir glæsilegt skot utan teigs.

Maxi Rodriguez skoraði svo sitt fyrsta mark í enska boltanum eftir að hafa afgreitt knöttinn laglega í netið af stuttu færi eftir stungusendingu Alberto Aquilani.

Babel komst svo einn í gegnum vörn Burnley í uppbótartíma eftir sendingu Lucas Leiva og skoraði fjórða og síðasta mark Liverpool.

Burnley er með 27 stig í næstsíðasta sæti deildarinnar, sjö stigum frá öruggu sæti þegar aðeins sex stig eru eftir í pottinum. Burnley og Portsmouth eru því fallin og nánast öruggt að Hull mun fylgja með í ensku B-deildina.

Everton á enn möguleika á að komast upp í sjöunda sæti deildarinnar og þar með í Evrópusæti eftir sigurinn í dag en sá möguleiki er lítill. Liðið er fimm stigum á eftir Liverpool þegar tvær umferðir eru eftir af deildakeppninni.

Liðið lenti undir í leik sínum gegn Fulham í dag er Erik Nevland nýtti sér mistök Leighton Baines í vörn Everton og skoraði ágætt mark.

Chris Smalling varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í upphafi síðari hálfleiks og jafnaði þar með metin fyrir Everton. Sigurmarkið kom svo í uppbótartíma, sem fyrr segir, úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Chris Baird braut á Tim Cahill.

Fulham er í tólfta sæti deildarinnar með 43 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×