Innlent

Segir Samfylkinguna gleypa Vinstri græna

Valdimar Svavarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
Valdimar Svavarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
„Samfylkingin er búin að vera lengi við völd og á vissan hátt lít ég þannig á að hún sé að gleypa Vinstri græna," segir Valdimar Svavarsson, oddviti sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, um væntanlegt meirihlutasamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í bæjarfélaginu.

Samfylkingin tapaði meirihluta sínum í bæjarfélaginu í kosningunum fyrir viku. Í kjölfarið hófu Vinstri grænir viðræður við Samfylkinguna um myndun nýs meirihluta. Þær viðræður hafa gengið vel og verður málefnasamningur flokkanna að öllum líkindum lagður fyrir félagsfundi á morgun eða þriðjudag.

Valdimari hugnast ekki samstarf ríkisstjórnarflokkanna í Hafnarfirði. Hann segir að kjósendur hafi sent Samfylkingunni skýr skilaboð í kosingunum. „Samstarf þessara flokka er ekki gott fyrir bæinn vegna þess að Samfylkingin er búin að stýra bæjarfélaginu lengi. Staðan er erfið og það þarf að taka á málum með mikilli festu og breytum áherslum. Fyrirfram getur maður ekki talið líklegt að þessi meirihluti taki á vandanum og geri til að mynda breytingar á stjórnkerfinu."

Valdimar telur að ljósi bágar fjárhagsstöðu bæjarfélagsins hefðu flokkarnir átt að ræða um stjórn eða samstarf allra flokka. „Í ljósi stöðunnar eiga menn að leyfa sér að hugsa út fyrir kassann og horfa til þess að allir flokkanir starfi saman. Við ræddum það við Vinstri græna fyrir um viku en þá kom í ljós að Samfylkingin hafði engan áhuga á því."

Eftir að afstaða Samfylkingarinnar lág fyrir telur Valdimar að Vinstri grænir hefðu átt að hefja meirihlutaviðræður við Sjálfstæðisflokkinn þar sem flokkarnir felldu í sameiningu meirihluta Samfylkingarinnar.




Tengdar fréttir

Málefnasamningur lagður fyrir flokkana eftir helgi

„Við höfum náð samkomulagi um flesta hluti og það er fátt sem getur komið í veg fyrir að við myndum meirihluta,“ segir Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×