Innlent

Gröndalshús í loftið í kvöld

Í kvöld verður Gröndalshús híft af sökkli sínum að Vesturgötu 16 b og flutt út í Örfirisey þar sem Völundarverk Reykjavík er tímabundið með aðsetur til endurgerðar eldri húsa samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Undirbúningur að flutningum hefur staðið yfir að undanförnu og í dag var Vesturgötu frá horni Ægisgötu til Garðastrætis lokað til að framkvæmdamenn gætu athafnað sig, en meðal annars þarf að fjarlægja ljósastaur tímabundið.

Kranabíl verður komið fyrir um kvöldmatarleytið og hann gerður klár með ballest. Endanleg tímasetning á flutningi ákvarðast í samráði við vaktstjóra lögreglu, en gera má ráð fyrir að Gröndalshúsi verði lyft á flutningavagn milli kl. 8 - 9 í kvöld.

Stálbitum hefur verið komið fyrir undir húsinu og verður þvi lyft á þeim. Húsið verður flutt með skorsteini og þurfti að styrkja sérstaklega í kringum hann með stálgrind. Þá hafa innviðir hússins verið styrktir fyrir flutninginn. Húsið með stálbitum vegur um 33 tonn.

Gröndalshús er byggt árið 1882. Það er vel varðveitt timburhús með sérstöku byggingarlagi og hefur tekið litlum breytingum frá upphafi. Það hefur einnig mikið menningarsögulegt gildi en í því átti Benedikt Gröndal, skáld og náttúrufræðingur, heima um tíma og er það kennt við hann síðan. Það stendur nú á baklóð við Vesturgötu 16b.

Völundarverk mun gera við húsið jafn að utan sem innan og er áætlað að því verði lokið fyrir árslok. Framtíðarstaðsetning hússins hefur ekki verið ákveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×