Erlent

Enginn fannst á lífi í Léogane

Starfsmenn íslensku sveitarinnar að störfum.
Starfsmenn íslensku sveitarinnar að störfum. MYND/Landsbjörg

Íslenska aþjóðabjörgunarsveitin var við störf í borginni Léogane vestur af höfuðborginni Port au Prince á Haiti í gær. Horfið var frá áformum um að sveitin gisti á svæðinu og fór hún því til búða í gærkvöldi. Í tilkynninfu frá Landsbjörg segir að ástandið í Léogane sé afar slæmt og leitaði sveitin í rústum en enginn fannst þar á lífi.

Mikið var af slösuðu fólki í borginni og sinnti sveitin sjúkrahjálp. Einnig kallaði hún eftir alþjóðlegu sjúkraliði á staðinn og mun hópur fara á staðinn í dag.

„Verkefni sveitarinnar í dag er að leita í rústum í miðborg Port au Prince ásamt bandarískri sveit sem hún hefur unnið með áður. Ekki er komin nánari lýsing á verkefnum dagsins," segir einnig.

Að sögn er ástand meðlima sveitarinnar eftir atvikum gott. „Þegar rústabjörgunarhópurinn kemur til búða er búið að hreinsa vatn svo þeir geti farið í sturtu, gætt er að því að allir fái nóg að borða og að þeir séu að drekka nægt vatn," segir ennfremur.

„Slysavarnafélagið Landsbjörg og utanríkisráðuneytið vinna nú að því að undirbúa flutning sveitarinnar til Íslands. Ekki er þó vitað hvenær sveitin lýkur störfum á Haiti en þumalfingursreglan er sú að rústabjörgunarsveitir hætta störfum eftir að 48 klst eru liðnar frá síðasta fundi á lifandi manneskju á skaðasvæðinu," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×