Enski boltinn

Anelka aldrei verið eins hamingjusamur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Frakkinn Nicolas Anelka segir að honum líði eins og heima hjá sér í herbúðum Chelsea og hann vonast til þess að leggja sitt af mörkum svo Chelsea vinni sögulegan tvöfaldan sigur í vetur. Chelsea hefur nefnilega aldrei unnið bæði deild og bikar á sama tímabili.

Anelka segist vera hamingjusamari í dag en hann hefur nokkurn tímann verið á sínum skrautlega ferli. Hann hefur einu sinni orðið meistari í Englandi og einnig hefur hann unnið bikarinn einu sinni.

„Ég hef verið svo lánsamur að vinna titla í gegnum tíðina. Að vinna titla með Chelsea myndi samt toppa það allt þar sem þetta er fyrsta félagið þar sem mér líður eins og heima hjá mér. Aðalmarkmið okkar var alltaf að vinna deildina en núna eigum við möguleika á að vinna tvöfalt. Þar með myndum við endurskrifa sögu félagsins og ég er meira en til í að leggja mitt af mörkum þar," sagði Anelka.

„Það var mjög gaman að vinna deildina með Arsenal en nú er ég eldri og vitrari. Ég myndi njóta þess enn meira núna. Það eru enn tveir stórir leikir eftir og ég get ekki beðið eftir að spila þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×