Innlent

Viðskiptavinir bíða óþreyjufullir eftir endurreikningi lána

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Páll Árnason ætlar að leggja fram frumvarpið á föstudag. Mynd/ GVA.
Árni Páll Árnason ætlar að leggja fram frumvarpið á föstudag. Mynd/ GVA.
Reiknað er með að efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp í tengslum við gengisdóm Hæstaréttar á Alþingi á föstudag, samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, boðaði frumvarpið þegar að dómur féll í Hæstarétti seinni partinn í september. Með því er gert ráð fyrir að dómurinn nái til allra gengistryggðra bíla- og húsnæðislána einstaklinga, þrátt fyrir mismunandi ákvæði slíkra lána.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur fengið fjölmargar ábendingar frá áhorfendum og lesendum sem benda á að lánafyrirtækin hafi dregið lappirnar varðandi endurreikning á bílalánum þrátt fyrir að um það bil mánuður sé liðinn frá því að seinni dómur Hæstaréttar var kveðinn upp.

Á vefsíðu Lýsingar segir að gera megi ráð fyrir því að í boðuðu lagafrumvarpi viðskiptaráðherra muni koma fram hvernig endurútreikningi skuli háttað. Fyrirtækið ætli því að bíða með að birta endanlega útfærslu á endurreikningi þar til umrætt lagafrumvarp hafi verið afgreitt sem lög frá Alþingi.

Á vefsíðu SP-Fjármögnunar kemur fram að fyrirtækið hefur lokið við fyrsta áfanga endurútreiknings gengistryggðra bílalána og kaupleigusamninga. Í fyrsta áfanga séu virkir samningar þar sem einn og sami skuldari hefur verið frá útgáfudegi samnings.

Avant virðist hafa beitt svipaðri aðferðarfræði og SP fjármögnun ef marka má upplýsingar á vefsíðu þeirra. Þar segir að enn ríki réttaróvissa um uppgjör yfirtekinna samninga.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið gerir ráð fyrir að frumvarp ráðherra verði orðið að lögum fyrir áramót.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×