Innlent

Iðgjöld hækka á meðan eigendur taka út eignir fyrir milljarða

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Iðgjöld tryggingafélaganna hækkuðu um nær þrjátíu prósent á tveggja ára tímabili samkvæmt úttekt Neytendasamtakanna. Á sama tíma tóku eigendur þriggja stærstu félaganna út úr þeim eignir fyrir rúma 42 milljarða króna.

Neytendasamtökin létu gera verkefnisskýrslu fyrir nokkru og bar skýrslan nafnið Þrautir neytenda á sviði vátrygginga. Í skýrslunni kemur fram að iðgjöld vátrygginga hækkuðu verulega á árunum 2006 til 7 eða um 27,6% á meðan almennar verðbreytingar á sama tíma voru 12,5%.

Því hafi verið um mikla raunhækkun að ræða og tryggingaiðgjöld orðið stór liður í útgjöldum heimilanna. Iðgjöldin hækkuðu einnig talsvert umfram hækkun tjónakostnaðar. Bílatryggingar hækkuðu t.a.m. um 28% á tímabilinu á meðan t.d. bílar, varahlutir, viðgerðir og viðhald hækkaði að meðaltali um 8,9%.

Sé litið á ársreikninga þriggja stærstu tryggingafélaganna; Sjóvá, Vís og TM má sjá að á sama tíma og iðgjöldin hækkuðu hvað mest náðu arðgreiðslur og úttektir hluthafa nýjum hæðum.

Sé litið til þeirra tveggja ára sem iðgjöldin hækkuðu hvað mest, 2006 til 7, þá tóku hluthafar um 42 milljarða króna út úr félögunum, munar þar mestu um úttektir eigenda Vátryggingafélags Íslands.

Inni í þessari upphæð eru rúmlega 18 milljarða króna arðgreiðslur til hluthafa, mestur hluti þeirra fór til hluthafa Sjóvár eða um 13 milljarðar króna.

Með öðrum orðum að á sama tíma og hluthafar tryggingafélaganna högnuðust um gríðarlegar fjárhæðir borguðu heimilin í landinu hærri iðgjöld en fyrr, ef marka má úttekt Neytendasamtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×