Enski boltinn

Beckham útilokar ekki að spila aftur með Man. Utd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Beckham hefur kvatt Galaxy í bili.
Beckham hefur kvatt Galaxy í bili.

David Beckham er ekki af baki dottinn þrátt fyrir háan fótboltaaldur og erfið meiðsli. Kappinn stefnir nú á að spila í Evrópu eftir áramót eins og hann hefur áður gert með AC Milan.

Beckham hefur enn mikinn metnað fyrir enska landsliðinu og er staðráðinn í því að vinna sér aftur sæti í liðinu. Beckham hefur ekki spilað með landsliðinu síðan í mars er hann meiddist illa og missti af HM fyrir vikið.

Vængmaðurinn hefur verið á fínu róli með LA Galaxy og vill komast til Evrópu á meðan það er frí í bandaríska boltanum. Hann segir þó alveg klárt að hann fari ekki aftur til AC Milan.





Becks er hress.

"Ég mun ekki vera með Milan þar sem það er ekki hægt að komast í hópinn á svona stuttum tíma. Ég mun fara eitthvert þar sem ég vil vera í leikformi og eiga möguleika á því að komast í landsliðið," sagði Beckham.

Hann hefur á síðustu árum verið orðaður við endurkomu í ensku úrvalsdeildina en svarar þeim sögusögnum alltaf á sama hátt - hann geti ekki hugsað sér að spila fyrir annað lið en Man. Utd á Englandi.

"Ég hef saknað þess að leika í ensku úrvalsdeildinni. Kannski sný ég aftur þangað en það væri þá bara með Man. Utd. Ég er samt ekki að sjá það gerast en við verðum að bíða og sjá hvað gerist."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×