Innlent

Segir meintar hótanir slitnar úr samhengi

Bjarni fullyrðir að Steinunn og fulltrúi rannsóknarfyrirtækisins Kroll hafi saumað allt of harkalega að sér í óformlegri yfirheyrslu í þessu herbergi.Fréttablaðið / gva
Bjarni fullyrðir að Steinunn og fulltrúi rannsóknarfyrirtækisins Kroll hafi saumað allt of harkalega að sér í óformlegri yfirheyrslu í þessu herbergi.Fréttablaðið / gva

Fulltrúi í slitastjórn Glitnis segir meintar hótanir formannsins, Steinunnar Guðbjartsdóttur, í garð starfsmanns Íslandsbanka, sem sagt er frá í kvörtun sem send hefur verið Héraðsdómi Reykjavíkur, vera slitnar úr samhengi. Þær gefi ekki tilefni til afsagnar slitastjórnarinnar.

Lögmaður Bjarna Jóhannessonar, fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis og núverandi starfsmanns Íslandsbanka, sendi á miðvikudaginn síðasta formlega kvörtun til Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hann fullyrðir að Steinunn hafi hótað Bjarna í yfirheyrslu hjá slitastjórninni.

Lögmaður Bjarna segir hann hafa mætt áður í hljóðritaða yfirheyrslu sem hafi að mestu gengið út á að lítillækka hann og gera hann totryggilegan. Sú síðari, nú í júlí, hafi hins vegar verið kynnt sem óformleg og hafi því ekki verið hljóðrituð. Þar hafi verið ýjað að því að hann hefði eitthvað að fela og það gæti haft afleiðingar fyrir hann að vera ekki samvinnuþýður.

Enn væri hægt að bæta fólki inn í stefnur slitastjórnarinnar.

Bjarni sleit að lokum fundinum vegna þessa og hefur nú farið fram á að slitastjórninni verði skipt út. Hann vildi ekkert tjá sig um málið þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær.

Bjarni kemur við sögu í stefnu slitastjórnarinnar á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding og þremur fyrrverandi starfsmönnum Glitnis í svokölluðu Aurum-máli. Hann var einn viðtakenda tölvuskeytis frá Jóni Ásgeiri þar sem Jón Ásgeir virðist, sem stjórnarformaður, reyna að hafa áhrif á lánveitingar bankans og segir að verði honum ekki hlýtt sé kannski réttast að hann verði starfandi stjórnarformaður.

Ekki náðist í Steinunni Guðbjartsdóttur í gær. Hinn fulltrúinn í slitastjórninni, Páll Eiríksson, segist ekki hafa séð kvörtunina og geti því lítið tjáð sig um efni hennar. Honum finnist þó mjög vafasamt að vitna til orða sem féllu á fundunum án þess að samhengisins sé gætt. „Menn púsla því saman sem þeim hentar,“ segir hann.

Hann segir að ef óskað verði eftir því muni slitastjórnin mæta í héraðsdóm og útskýra sína hlið málsins. „Það er ekkert að fela í því,“ segir Páll, sem telur ekki tilefni fyrir hann og Steinunni til að segja sig úr slitastjórninni.

Lárus Welding gerði fyrr á árinu athugasemdir við starfshætti slitastjórnarinnar við skýrslutökur. Spurður hvort fleiri kvartanir hafi borist segir Páll að þessi sé sú eina. „En menn hafa svo sem ekki allir borið sig allt of vel þegar þeir eru spurðir út í ákveðin atriði sem snerta rekstur bankans fyrir hrun,“ segir hann. stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×