Innlent

Ekki fávitar

Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.
Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, segir að það hafi alltaf legið fyrir að verði farið í almennar niðurfærslur lána verði sú aðgerð bótaskyld. Þess vegna hafi samtökin talað fyrir þjóðarsátt. Hann gefur lítið fyrir yfirlýsingar lögfræðinga undanfarna daga og segir stjórnarmenn hjá samtökunum ekki vera fávita.

Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og dósent við Háskóla Íslands, telur almenna niðurfærslu skulda fela í sér eignarnám. Ef skuldaniðurfelling eigi sér stað að frumkvæði ríkisins, hvaða nafni sem hún nefnist, verði slíkt ekki gert bótalaust. Þá hefur Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags, bent á að eignarétturinn sé varinn af stjórnarskránni. Alþingi geti ekki með einu pennastriki svipt kröfueiganda eignum sínum.

„Þrátt fyrir að enginn af stjórnarmönnum HH sé löglærður, þá erum við ekki fávitar. Auðvitað vissum við, að yrði leiðréttingin framkvæmd með lögum, þá væri hún bótaskyld. Maður þarf ekki að vera dósent við HÍ til að vita það," segir Marinó í pistli á bloggsíðu sinni.

Þá segir Marinó: „Annars finnst mér merkilegt, að engum dósent við lagadeild HÍ hefur dottið í hug að stinga niður penna og tjá sig um hvort aðgerðir bankanna á árunum fyrir hrun hafi verið sviksamleg og ólögleg aðferð til að hafa peninga af fólki, fyrirtækjum, ríkissjóði og sveitarfélögum. En um leið og eitthvað á að gera til leiðrétt þann fáránleika, þá spretta sérfræðingarnir upp úr öllum holum og öskra "lögbrot, lögbrot"."


Tengdar fréttir

Segir almenna niðurfærslu vera eignarnám

Almenn niðurfærsla lána telst eignarnám, að mati Karls Axelssonar, hæstaréttarlögmanns og dósents við lagadeild HÍ. Hann segir að niðurfærslan verði að eiga sér stað með lagasetningu frá Alþingi og eigendur skuldabréfanna, þ.e kröfuhafar, verði að fá mismuninn greiddan sem bætur frá ríkinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Hæstaréttarlögmaður: Almenn niðurfærsla lýsir taugaveiklun

Formaður Lögmannafélagsins segir eignarréttinn varinn af stjórnskránni og Alþingi ekki geta með einu pennastriki svipt kröfueiganda eignum sínum. Hann segir að flokka eigi hugmyndir um niðurfærslu sem taugaveiklun og ráðaleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×