Enski boltinn

Ferguson ætlar ekki að kvelja sjálfan sig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, segist ekki ætla að líta um öxl og pirra sig á leikjum þar sem United missti mikilvæg stig ef liðið verður ekki meistari um næstu helgi. United er stigi á eftir Chelsea og gæti því misst af titlinum með aðeins einu stigi.

United hefur tapað sjö leikjum á leiktíðinni og þau eru mörg stigin sem stuðningsmenn liðsins hafa svekkt sig á að missa.

„Hér áður fyrr velti ég mér mikið upp úr hverju töpuðu stigi en það er ekki hægt að kvelja sjálfan sig á þann hátt. Við töpuðum fyrir Burnley í upphafi leiktíðar. Þar fóru þrjú stig og við klúðruðum líka víti. Hefðum við skorað úr því hefðum við hugsanlega fengið stigin sem hefðu skipt öllu máli," sagði Ferguson.

„Það voru líka umdeildir dómar gegn Chelsea. Það er hægt að skoða marga hluti. Það er ekkert mál að velta sér upp úr þessu og kvelja sjálfan sig ef maður vill. Það má aftur á móti ekki gleyma því að stundum erum við líka heppnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×