Enski boltinn

John Terry: Vonast til að verða fyrirliði enska landsliðsins á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Mynd/AP
John Terry, fyrirliði Chelsea, lifir enn í voninni um að fá að bera aftur fyrirliðabandið hjá enska landsliðinu en hann missti það í febrúar eftir að enska slúðurpressan smjattaði á fréttum um framhjáhald hans.

John Terry átti að vera fyrirliði enska landsliðsins á HM í Suður Afríku í sumar en landsliðsþjálfarinn Fabio Capello tók bandið af Terry og það mun vera Manchester United-maðurinn Rio Ferdinand sem mun leiða enska landsliðið út á völlinn á mótinu.

„Það var augljóslega mjög erfitt fyrir mig að sætta mig við þetta eftir fundinn með landsliðsþjálfarunum," sagði John Terry um stutta fundinn með Capello þar sem hann tilkynnti honum að hann væri ekki lengur fyrirliði.

„Ég bar virðingu fyrir ákvörðun hans og sagði honum að það myndi ekkert breytast hjá mér. Ég myndi leggja mig áfram hundrað prósent fram. Ég tók þetta á herðarnar og hélt bara áfram," sagði Terry.

„Það eina sem ég get gert er að spila vel, reyna að tryggja mér sæti í HM-hópnum og vonandi fæ ég tækifæri einhvern daginn til þess að bera fyrirliðabandið á ný," sagði Terry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×