Innlent

Segir botninum náð - spáir uppgangi á fasteignamarkaði

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.
Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.

„Ég trúi því að næstu tölur muni jafnvel sýna að fjöldi þinglýstra samninga hafi tvöfaldast," segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, en hann segir jákvæð teikn á lofti á fasteignamarkaðinum sem hefur verið frosinn meira eða minna síðan í árslok 2007.

Þjóðskrá Íslands birti fyrir helgi fjölda þinglýstra fasteignasamninga en þar kom fram að alls hefðu 55 samningar verið þinglýstir í síðustu viku. Grétar telur fjölda þinglýstra samninga ekki gefa rétta mynd af ágúst mánuðinum sem hefur verið óvanalega góður miðað við þá stöðu sem uppi hefur verið og byggir hann það á viðtölum og samtölum við fjölda fasteignasala í ágúst.

„Það sem við finnum fyrir núna og undanfarnar tvær, þrjár vikur, þá hefur verið meiri áhug á fasteignaviðskiptum," segir Grétar en aðspurður hversvegna síðustu tölur lýsi ekki markaðinum rétt segir hann að þær tölur endurspegli í raun ástandið eins og það var í júlí mánuðinum.

„Við erum farnir að verða varir við öðruvísi áhuga en hefur verið. Það er jafnvel farið að bítast um eignir," segir Grétar en síðastliðin tvö ár hafa verið fasteignasölum erfið.

Þegar best gekk árið 2004 til 2005 töldu þinglýstir samningar hátt í 300. Hann segir þá tölu þó sýna frekar sprenginguna sem varð í fasteignaviðskiptum. Hann bendir á fyrir sprenginguna þá hafi þinglýstir samningar á viku verið á milli 150 og 200 á viku. Þegar ástandið var hvað verst voru þinglýstir samningar vel innan við 50 á viku.

„Ég tel að tölur næstu vikna muni sýna helmingsaukningu frá síðustu viku," segir Grétar sem spáir því að fasteignamarkaðurinn sé þegar búinn að ná botninum. Nú liggi leiðin vonandi upp á við og markaðurinn fari að sýna stöðugleika.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×