Enski boltinn

Scholes tryggði United sigur í uppbótartíma í Manchesterslagnum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Carlos Tevez í baráttu við Johnny Evans og Paul Scholes í slagnum í dag.
Carlos Tevez í baráttu við Johnny Evans og Paul Scholes í slagnum í dag. GettyImages

Manchester United tryggði sér sigur í uppbótartíma í risaslagnum gegn grönnum sínum í Manchester City í dag. Paul Scholes skoraði markið með skalla.

Það vantaði ekki spennuna í leikinn sem kom niður á gæðum hans. Það var gríðarlega mikið í húfi fyrir bæði lið og leikurinn bar þess merki.

Stöðubaráttur voru fyrirferðamiklar á kostnað alvöru færa þar sem betri nýtingu á síðustu þriðjungum endanna skorti. Sendingar beggja liða ollu vonbrigðum.

Wayne Rooney var í byrjunarliði United en skorti augljóslega leikæfingu. Hann var ekki upp á sitt besta og þá vantar mikið í lið United eins og hefur sýnt sig í síðustu leikjum liðsins.

Sama var uppi á teningnum hjá Carlos Tevez hjá City, sem lék áður með United, en hann fann sig ekki frekar en Rooney.

Það var Paul Scholes sem skoraði sigurmarkið langt inni í uppbótartíma. Darren Fletcher fann Patrice Evra á kantinum, hann sendi fyrir í fyrsta á kollinn á Scholes sem skoraði dýrmætasta mark tímabilsins til þessa.

Lokatölur 0-1 fyrir United.

United er því aðeins einu stigi frá Chelsea sem á þó leik til góða. United á þrjá leiki eftir í deildinni en Chelsea fjóra. Chelsea mætir Tottenham í dag klukkan 16.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×