Innlent

Persóna Davíðs þvældist fyrir

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Heift, harðar deilur, tortryggni og eitrað andrúmsloft milli ráðherra Samfylkingar og Davíðs Oddssonar þvældist fyrir þegar seðlabankstjórinn Davíð upplýsti stjórnvöld um stöðu bankanna. Persóna hans og pólitísk fortíð hafði bein áhrif á neyðarviðbrögð stjórnvalda, að mati rannsóknarnefndinnar.

„...fyrri stjórnmálaþátttaka formanns bankastjórnar Seðlabankans hafði bein áhrif á það hvernig ráðherrar brugðust við upplýsingum sem formaðurinn (þ.e. Davíð) flutti fulltrúum ríkisstjórnarinnar um alvarlega

stöðu bankanna."

Segir í skýrslunni og nefndin telur því það ekki „æskileg skipan mála að í starf seðlabankastjóra veljist fyrrverandi stjórnmálamenn".

Það er deginum ljósara í skýrslunni að seta Davíðs í Seðlabankanum markaði verulega samskipti Seðlabanka og stjórnvalda. Þannig varð harkaleg deila milli Davíðs og bankamálaráðherra um Evrópumál til þess að þeir hittust ekki á fundi í nærri heilt ár - örlagaríkt ár í bankalífi landsins - og hittust ekki aftur á fundi fyrr en nokkrum dögum fyrir fall bankanna.

Merki um tortryggnina á milli mikilvægra aðila í krísustjórnun fjármálalífsins - má til að mynda sjá í lýsingu þáverandi leiðtoga Samfylkingar af fundi með forystumönnum ríkisstjórnar og bankastjórnar Seðlabankans í febrúar 2008. Þar segir hún að í eintali Davíðs hafi verið erfitt: "að greina á milli frásagna hans af staðreyndum og persónulegrar afstöðu hans til manna og málefna, litaðri af pólitískum ákvörðunum og átökum fyrri ára."

En persóna Davíðs - þvældist ekki bara fyrir svörnum andstæðingum hans í pólitíkinni - heldur einnig samherjum. Þannig lýsir Geir Haarde samskiptum sínum við Davíð - samstarfsmanni hans til 40 ára og gamals vinar - við skýrslutöku svo: „Og það má segja að það hafi flækt okkar samstarf, vegna þess að maður gat ekki alltaf áttað sig á því hvenær var hann ... að tala við mig sem minn forveri í starfi út af einhverju sem hann vissi? Og hvenær var hann embættismaðurinn að ráðleggja forsætisráðherranum? Þetta var flókið, sérstaklega vegna þess að honum hættir til að vera stóryrtur, taka djúpt í árinni, „dramatísera"." Þá hafi Geir gjarnan deilt "með tveimur eða fjórum" í frásögn Davíðs.

Persóna Davíðs leiddi þannig til þess, að mati rannsóknarnefndarinnar, að sérfræðiþekking manna í Seðlabankanum hafi lítt notið við þegar neyðarlögin voru samin. Viðvaranir úr Seðlabanka var tekið með tortryggni. Þegar Geir lagði til að Davíð leiddi þriggja manna neyðarstjórn í byrjun október - hótaði Össur Skarphéðinsson stjórnarslitum. Og þegar Davíð stakk upp á þjóðstjórn var vantraustið slíkt að ráðherrar úr báðum flokkum - töldu að honum bæri að víkja úr stóli Seðlabankastjóra.

Þá er haft eftir Jóni Steinssyni hagfræðingi í skýrslunni að „starfsmenn Seðlabankans hefðu sagt Jóni að Davíð Oddsson talaði um Geir sem „idjót". " Af þessu verður ekki ráðið að mikið traust hafi verið á milli þessara veigamiklu stofnana í íslensku fjármálakerfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×