Íslenski boltinn

Þórir: Okkar besti leikur í langan tíma

Elvar Geir Magnússon skrifar
Þórir Hákonarson.
Þórir Hákonarson.

„Okkur fannst við eiga eitthvað skilið úr þessum leik," sagði Þórir Hannesson eftir tap Fylkis gegn Breiðabliki í kvöld. Þórir bar fyrirliðabandið hjá Fylki í leiknum.

Það var eitt mark sem skildi liðin að. „Við sýndum baráttu og vinnusemi og gáfumst aldrei upp. Við brotnuðum ekki við markið sem við fengum á okkur í seinni hálfleik eins og hefur verið svo oft í sumar. Það er vissulega jákvætt," sagði Þórir.

„Það vantaði einhverja átta leikmenn hjá okkur en það skipti engu máli. Það er nóg til af ungum frískum mönnum í Árbænum. Þetta var okkar besti leikur í langan tíma. Við vorum að berjast fyrir hvorn annan og það var það jákvæða við þennan leik."

Liðin fyrir neðan Fylki töpuðu bæði í kvöld svo Árbæjarliðið er enn fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. „Þetta er algjörlega í okkar höndum. Við eigum Grindavík og Hauka heima í næstu leikjum og þar eru ekkert annað en sigrar sem koma til greina. Við viljum ekki fara í Frostaskjólið að berjast fyrir lífi okkar," sagði Þórir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×