Innlent

Björgólfur Thor: Skil reiði almennings

Björgólfur Thor segist skilja réttláta reiði almennings. Það muni taka mörg ár fyrir hann að byggja upp mannorð sitt á Íslandi takist það á annað borð.
Björgólfur Thor segist skilja réttláta reiði almennings. Það muni taka mörg ár fyrir hann að byggja upp mannorð sitt á Íslandi takist það á annað borð.

„Ég skil réttláta reiði almennings gagnvart þeim sem voru þátttakendur í þeirri atburðarás sem leiddi til hrunsins. Það mun taka mig mörg ár að byggja upp mannorð mitt á Íslandi á nýjan leik ef það tekst á annað borð, en ég er staðráðinn í að gera mitt besta til þess. Ég geri hins vegar ráð fyrir að grundvallarreglum réttarríkisins verði framfylgt í meðferð þeirra mála sem tengjast hruninu, sem og við afgreiðslu mála almennt hjá Alþingi og ríkisvaldi," segir athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson í bréfi sem hann sendi iðnaðarnefnd fyrr í mánuðinum í tengslum við gagnaver Verne Holding á Suðurnesjum.

Iðnaðarnefnd Alþingis samþykkti á miðvikudag frumvarp um gagnaver Verne Holding með breytingum. Novator, félag Björgólfs Thors, mun ekki njóta neins fjárhagslegs ávinnings af fjárfestingarsamningi um gagnaverið. Félagið hefur afsalað sér ávinningnum til ríkisins, og þar með þjóðarinnar.

Ætlar ekki að auka hlut sinn í félaginu



Í bréfinu segir Björgólfur að uppbygging atvinnulífsins og erlend fjárfesting sé nauðsynlegur þáttur í endurreisn íslensks efnahagslífs. Gagnaverið í Reykjanesbæ fari þar fremst í flokki og það væri stórkostlegur missir fyrir atvinnuuppbyggingu hér á landi ef ekki yrði af verkefninu.

Hann segist ekki vilja að persónuleg aðkoma sín standi í vegi fyrir að unnt sé að veita fyrirtækinu þá fyrirgreiðslu sem felst í samningnum. „Ég afsala mér þeim ríkisstyrk sem felst í lögfestingu fjárfestingarsamningsins. Við sölu Verne Holdings ehf. eða greiðslu arðs til mín frá félaginu mun ég greiða til ríkisins þau verðmæti sem felast í gerð samningsins við lögfestingu, að teknu tilliti til eignarhlutar míns í félaginu og greiddra skatta. Ég sem fjárfestir mun því ekki njóta fjárhagslegs ávinnings af fyrirgreiðslu ríkisins," segir Björgólfur.

Þá segist hann ekki ætla að auka við hlut sinn í félaginu og ekki taka leiðandi hlutverk við stjórn þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×