Íslenski boltinn

Gummi Ben: Áttum meira skilið úr þessum leik

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson.
„Ég er sár og svekktur með þessa niðurstöðu en það er alveg á hreinu að við áttum meira skilið út úr þessum leik en raun bar vitni," sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfyssinga, eftir tapið gegn FH í kvöld.

FH-ingar unnu Selfyssinga 2-1 á Kaplakrikavelli í 19.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

„Það er hrikalega súrt að tapa leik á vítaspyrnu sem átti aldrei að dæma. Þetta var ekki í okkar höndum í kvöld , en dómarinn tók hreinlega bara ranga ákvörðun og við getum ekkert gert í því. Ég get ekki annað en hrósað mínu liði eftir spilamennskuna í kvöld, en við vorum líklega að spila gegn besta liðið landsins og áttum að fá meira út úr þessum leik," sagði Guðmundur.

„Ég er virkilega stoltur af mínu liði því við gerðum FH-ingum þetta mjög erfitt fyrir, en samt sem áður förum við stigalausir frá leiknum og erum að sjálfsögðu hrikalega svekktir með það," sagði Guðmundur.

Gunnleifur Gunnleifsson varði frábærlega í lokin og var enn og aftur hetja FH-inga í sumar en Sigurður Eyberg náði fínu skoti að marki FH sem Gunnleifur sá við.

„Gunnleifur ver frábærlega hérna í lokin og með smá heppni hefði boltinn farið í netið, en FH-ingar hefðu einnig getað gert svona sex mörk hérna alveg í restina þegar við vorum allir farnir úr vörninni," sagði Guðmundur Benediktsson niðurlútur í leikslok í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×