Innlent

Tengsl gosa í Eyjafjallajökli við Kötlugos

Ari Trausti Guðmundsson
Ari Trausti Guðmundsson

„Það hefur ekki gosið á Fimmvörðuhálsi í fleiri þúsund ár, og ekki hægt að skýra af hverju gýs þarna núna en ekki beint þaðan sem kvikan safnast saman undir háfjallinu,“ segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. „Það eru gossprungur bæði vestan og austan úr Eyjafjallajökli, fyrir ofan Seljalandsfoss og þar sem gýs núna. Fjallið er jú um 700 þúsund ára gamalt þannig að gríðarlegur fjöldi gosa hefur komið upp á svæðinu. Bæði í háfjallinu og sprungunum í hlíðum þess.“ Að minnsta kosti þrjár gossprungur liggja um Fimmvörðuháls, en sú sem nú gýs liggur öðruvísi en hinar tvær.

Ari segir að um hreint hraungos sé að ræða. Það geti hins vegar breyst ef gosið færist undir jökulhettuna til vesturs. Þá breytist gosið í gjóskugos með vatnsflóði. Eins segir gossaga Eyjafjallajökuls að gosið geti staðið lengi.

Ari segir að gossagan sýni jafnframt tengsl á milli gosa í Eyjafjallajökli og Kötlu. „Eyjafjallajökull gýs sjaldan en Katla oft. Á sögulegum tíma höfum við tvö dæmi þess að Katla rumskar um leið og eldgosi lýkur. Kannski verður þetta með svipuðum hætti núna en það er aldrei hægt að ráða í hegðun eldfjalla. Ástæðan fyrir þessu liggur ekki fyrir og hefur lítið forspárgildi,“ segir Ari.

Sú kenning hefur verið sett fram að ástæða þess að Katla hefur ekki gosið af krafti í tæpa öld sé sú að gosið hafi í Surtsey og Vestmanneyjum. „Mér finnst sú kenning langsótt. Hlé á milli gosa í eldstöðvum eru breytileg og er nærtækt að skoða gossögu Heklu í því samhengi.“- sháAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.