Innlent

Þjóðarskútan er farin í slipp

Í nóvember 2008 var gestum og gangandi boðið að taka þátt í að sjóða saman „Þjóðarskútuna“, risastóran söfnunarbauk Mæðrastyrksnefndar.
Í nóvember 2008 var gestum og gangandi boðið að taka þátt í að sjóða saman „Þjóðarskútuna“, risastóran söfnunarbauk Mæðrastyrksnefndar.
Safnbaukurinn þjóðarskútan sem Víkur­vagnar smíðuðu fyrir og gáfu Mæðrastyrksnefnd er komin í slipp hjá Víkurvögnum, að sögn Jóhannesar Valgeirs Reynissonar, starfsmanns Víkurvagna.

Hann segir að þótt „skútan“ sé rammgerð hafi nýverið komið upp tilvik þar sem hún hafi verið skemmd og jafnvel reynt að stela úr henni peningum sem safnast hafi með sérútbúnum krækjum.

„Manni finnst þetta alveg síðasta sort, enda er Þjóðarskútan merkt Mæðrastyrksnefnd í bak og fyrir,“ segir Jóhannes.

Þjóðarskútan hefur staðið frammi í Smáralind og í verslunum Krónunnar og segir Jóhannes að henni verði komið aftur til starfa að viðgerð lokinni.

Skútan, sem afhent var Mæðrastyrksnefnd í desember 2008, er smíðuð úr járngrind og öryggisgleri þannig að það sést hversu mikið hefur í hana safnast.

Jóhannes segir að vel hafi gengið að safna í skútuna. Ef til vill sé þó einhver birtingarmynd þróunarinnar á ástandinu í samfélaginu að fyrst í stað hafi gjarnan verið settir seðlar, fimm þúsund og þúsund kallar, í hana en núna sé það „langmest klink“ sem fólk lætur af hendi rakna. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×