Enski boltinn

Wenger með allt á hornum sér

Henry Bigir Gunnarsson skrifar

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var allt annað en sáttur með leikmenn Blackburn sem og Martin Atkinson dómara eftir að Blackburn lagði Arsenal í gær.

„Við vorum mjög óheppnir að dómarinn skildi ekki dæma brot í báðum mörkum Blackburn. Leikmenn liðsins reyndu alltaf að stöðva markvörðinn í teignum og ég skil ekki af hverju dómarinn dæmdi ekki á það," sagði Wenger pirraður.

„Það var engin ástæða að spila boltanum frá leikmönnum Blackburn sem horfðu ekki einu sinni á boltann. Það voru tveir leikmenn fyrir framan markvörðinn okkar og þeir stóðu ítrekað í vegi fyrir hinum. Þegar leikmenn fara ekki í boltann og stöðva markvörðinn þá er það aukaspyrna. Ég bara skil ekki hvernig dómarinn fór að því að láta þetta viðgangast."

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Wenger kvartar yfir leikstíl liða Sam Allardyce og Allardyce viðurkennir að lið hans hafi einbeitt sér að Fabianski.

„Við vissum að veikleiki Arsenal væru sendingar í teiginn og við gerðum þetta á löglegan hátt. Við höfum nefnilega séð að Fabianski er ekki alltaf sá besti þegar hann er undir pressu," sagði Allardyce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×