Innlent

Laga stíga vegna gossins

Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína að gosstöðvunum að undanförnu og þeim á eftir að fjölga til muna í sumar.fréttablaðið/gva
Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína að gosstöðvunum að undanförnu og þeim á eftir að fjölga til muna í sumar.fréttablaðið/gva

Mikil umferð hefur verið um svæði í nágrenni gosstöðvanna við Fimmvörðuháls með tilheyrandi álagi á svæðin. Búast má við að sú umferð aukist enn með hækkandi sól og því er farið að huga að því að gera allt sem best úr garði fyrir sumarið.

Skógrækt ríkisins hefur haft umsjón með Goðalandi og Þórsmörk síðan á þriðja áratug 20. aldar. Svæðin voru friðuð fyrir beit og síðan hafa birkiskógar breiðst þar út. Til að koma í veg fyrir gróður og jarðvegsskemmdir í brattlendi á nú að fara í átak til að bæta stígakerfið. Það er einnig gert með öryggissjónarmið í huga.

„Það hefur verið gríðarleg aukning ferðamanna um svæðið með hraunstaumum niður í Goðaland. Stígar á svæðinu eru engan veginn gerðir til að anna slíkum ferðamannastraumi og allra síst að vori til,“ segir Hreinn Óskarsson, verkefnisstjóri Hekluskóga og starfsmaður Skógræktar ríkisins.

Hreinn segir von á fjölda manns í sumar. „Það er áætlað að 50 til 75 þúsund manns eigi eftir að ganga upp á Morinsheiði og á nærliggjandi fjöll ofan Bása til að berja nýja eldfjallið og hraunstraumana í Hrunagili og Hvannárgili augum. Þeir munu koma óháð því hvort áfram heldur að gjósa eða ekki.“

Nú er unnið að því að tryggja það fjármagn sem þarf til að ljúka verkinu eins fljótt og hægt er áður en ferðamannastraumurinn hefst fyrir alvöru. Hreinn segir marga hafa komið að verkefninu: Ferðamálastofu, ferðaþjónustuaðila á Merkursvæðinu, Rangárþing eystra og sjálfboðaliða í stígagerð frá Umhverfisstofnun.

Á miðvikudag verður farin ferð í Goðaland og Hreinn segir að samningar séu að nást við þyrluþjónustur um að flytja efni á svæðið. Allir hafi hag af því að koma þessum hlutum í lag fyrir sumarið.

kolbeinn@frettabladid.is

ferðamenn Búist er við að 50 til 75 þúsund manns leggi leið sína á Morinsheiði og nærliggjandi fjöll í sumar.mynd/hreinn óskarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×