Enski boltinn

Dalglish vildi taka við Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenny Dalglish.
Kenny Dalglish. Nordic Photos / Getty Images

Martin Broughton, stjórnarformaður Liverpool, hefur staðfest að Kenny Dalglish sóttist eftir starfi knattspyrnustjóra liðsins.

Upphaflega var Dalglish einn þeirra sem var falið að finna nýjan stjóra eftir að Rafael Benitez hætti en bauð svo sjálfur fram þjónustu sína.

„Kenny vildi fá starfið og við kunnum að meta það. En okkur fannst hann aldrei koma til greina í starfið og útskýrðum við það fyrir honum," sagði Broughton við enska fjölmiðla.

Það er þó mikill áhugi að Dalglish haldi áfram að starfa fyrir Liverpool enda er hann goðsögn hjá félaginu. Hann vann níu deildartitla, þrjá bikarmeistaratitla og þrjá Evróputitla sem leikmaður og þjálfari hjá Liverpool.

Roy Hodgson var ráðinn knattspyrnustjóri Liverpool í gær og vill ólmur halda Dalglish. „Þegar maður eins og Ken starfar innan félagsins er best að nota hann eins vel og mögulegt er," sagði Hodgson og vildi að Dalglish taki að sér að hafa yfirumsjón með þróun knattspyrnumála hjá félaginu.

Sjálfum leist Dalglish vel á ráðningu Hodgson. „Ég tók mjög vel í ráðninguna. Ég hef þekkt Roy í langan tíma og ber mikla virðingu fyrir honum. Við höfum ekki rætt mikið saman um framtíðina en ég hef áhuga á að starfa áfram fyrir Liverpool."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×