Erlent

Ekki segja sprengjubrandara um flugvelli

Óli Tynes skrifar
Frá Robin Hood flugvelli.
Frá Robin Hood flugvelli.

Tuttugu og sex ára gamall Breti hefur verið handtekinn fyrir að gantast með það á Twitter að hann ætlaði að sprengja flugvöll í loft upp.

Paul Chambers ætlaði að fljúga frá Robin Hood flugvellinum í Doncaster til Írlands þann fimmtánda janúar. Mikið fannfergi hefur verið í Bretlandi undanfarnar vikur og flugvöllum oft lokað.

Þann sjötta janúar sagði Chambers á Twitter; -Fjárans. Robin Hood er lokaður. Þið hafið rúma viku til þess að kippa þessu í lag, annars sprengi ég flugvöllinn í loft upp. Nokkru síðar bankaði lögreglan upp hjá honum.

Eftir sjö klukkustunda yfirheyrslur var Chambers sleppt gegn tryggingu til ellefta febrúar, en þá verður mál hans tekið fyrir dóm.

Fartölva hans, IPhone og borðtölva voru gerð upptæk og hann hefur þegar verið settur í lífstíðar bann á Robin Hood flugvelli. Loks hefur honum verið vikið úr starfi meðan málið er í rannsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×