Innlent

Leita þar sem heyrist úr rústunum

Íslenskir björgunarsveitarmenn að störfum á Haítí.
Mynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Íslenskir björgunarsveitarmenn að störfum á Haítí. Mynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg.

„Við notum mikið heimafólk til að segja okkur hvar fólk var inni þegar jarðskjálftinn reið yfir. Ef ekki eru nein skilaboð um að fólk hafi verið inni í húsum þá leitum við ekki þar,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, stjórnandi hjá íslensku alþjóðasveitinni á Haítí.

Íslenska sveitin flutti sig í gær til borgarinnar Léogane sem er um sjötíu kílómetra suðvestur af höfuðborginni Port-au-Prince og við upptök stóra jarðskjálftans á Haítí. Með Íslendingunum voru sveit frá Bretlandi og sveit frá Katar. Sveitirnar, alls um 100 manns, komu sér upp búðum á svæði friðargæsluliðs frá Srí Lanka og voru þar í nótt.

„Ástandið þarna er mjög slæmt. Stór hluti húsanna er hruninn að öllu eða einhverju leyti,“ lýsir Gísli stöðunni eftir að hann flaug í gærmorgun í þyrlu yfir Léogane. „Margt fólk hefur sjálft komið sér upp eins konar búðum og notar þá dúka eða annað til að verja sig fyrir sólinni.“

Íbúar Léogane höfðu vitanlega sjálfir þegar bjargað mörgum sem voru fastir og hjálparlausir. „En við ætlum að tryggja það að það sé búið að fullleita í þessari borg seinni partinn á morgun [í dag]. Við leitum einna helst á stöðum þar sem enn heyrist í fólki innan úr rústunum,“ útskýrir Gísli sem kveður stöðuna verða endurmetna að þessu verki loknu. „Á meðan það eru verkefni eru menn hér mjög áhugasamir um að leita.“

Gísli segir alla á Haítí hafa orðið fyrir skakkaföllum. „Fólk hefur annaðhvort misst nákomna eða fjarskylda ættingja og vini. Það er stór vinna fram undan fyrir Haítí að byggja sig upp aftur.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×