Innlent

Tópasmálið: „Hafi orðið mistök þá leiðréttum við þau“

Drengurinn fékk sér útrunnið Tópas og braut á sér tönnina. Mynd úr safni.
Drengurinn fékk sér útrunnið Tópas og braut á sér tönnina. Mynd úr safni.

„Það er leiðinlegt ef þau keyptu útrunna vöru, en annað þarf að skoða þetta mál betur," segir Pétur Smárason, rekstrastjóri Snælandsvideo, en Vísir greindi frá því í morgun að 12 ára piltur braut í sér tönn eftir að hafa fengið sér Tópas úr versluninni sem reyndist löngu útrunnið.

Faðir drengsins var ósáttur við viðbrögð verslunarinnar en Pétur segir að samskiptunum hafi ekki verið rétt lýst í grein Vísis.

Hann segist hafa talað við móður drengsins en þau samskipti hafi endað með því að hann hafi sagst ætla að láta tryggingafélagið skoða málið. Þá segir hann að hún hafi krafðist þess að fyrirtækið færi með drenginn til tannlæknis.

Eins og fram kom í fyrri fréttinni er drengurinn þroskahamlaður og því er það meiriháttar mál þegar hann fer til tannlæknis. Þá þarf að svæfa hann. Sjálfur sagði faðir drengsins að tannlæknir hefði gert við tvær tennur í drengnum og þá hafi kostnaðurinn verið um 150 þúsund krónur.

„Ég var ekki með neinn dónaskap. Ég hef verið að láta vinna í þessu máli síðan við töluðum saman," segir Pétur sem útilokar ekki að þau hafi keypt útrunnið Tópas. Hann segir það koma fyrir að útrunnar vörur séu seldar í hvaða búð sem er.

„Hafi orðið mistök, þá leiðréttum við þau," segir Pétur sem ætlar sér að komast til botns í málinu.


Tengdar fréttir

Þroskahamlaður drengur braut tönn á löngu útrunnu Tópasi

„Við keyptum tópaspakkann fyrir þremur dögum síðan,“ segir verkamaðurinn Sverrir Bergmann Egilsson en hann varð fyrir því óláni að kaupa útrunninn tópaspakka í versluninni Snælandsvídeo í Setbergi. Í ljós kom að pakkinn rann út í maí á síðasta ári. En það sem verra var, þá fékk tólf ára sonur Sverris sér tópas áður en þau uppgvötuðu að pakkinn væri útrunninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×