Innlent

BUGL: Bráðainnlögnum fjölgar um þriðjung

Helga Arnardóttir skrifar

Bráðainnlögnum ungmenna á barna-og unglingageðdeild Landspítalans hefur fjölgað um rúmlega þriðjung síðustu þrjá mánuði. Innlagnir eru flestar vegna sjálfsvígstilrauna, sjálfsskaða, þunglyndis og kvíða. Geðlæknar eru órólegir yfir þessari þróun og óttast að efnahagsástandið sé farið að bitna á geðheilsu barna.

Algengt hefur verið að bráðainnlagnir á barna- og unglingageðdeildina hafa

verið 15-20 á mánuði. Það er þó sveiflukennt en síðustu þrjá mánuði hefur orðið breyting þar á því þær hafa farið upp í þrjátíu á mánuði.

„Við veltum fyrir okkur hvað þarna sé á ferðinni, hvort þetta geti verið vísbending um að það sé aukið álag á barnafjölskyldur. Það komi þannig fram að þær sem standa höllum fæti fyrir og börn sem eru veikari fyrir þurfi á meiri aðstoð að halda og stundum bráðaþjónustu," segir Ólafur Ó. Guðmundsson yfirgeðlæknir á BUGL.

Þetta eru flest ungmenni á aldrinum 13-18 ára þó aldurinn hafi farið allt

niður í átta ára í örfáum tilvikum.

„Hvað bráðamálin varðar þá er það oftast í tengslum við lífsleiða og uppgjöf eða sjálfsskaðahegðun og sjálfsvígstilraunir. Allt er þetta tengt alvarlegu þunglyndi, kvíða og þess háttar."

Breyttar aðstæður barna geti valdið mikilli vanlíðan segir Ólafur. Þurfi börn að skipta um húsnæði vegna atvinnu-eða húsnæðismissis foreldra geti það oft skapað álag fyrir börn sem séu veik fyrir.

Hann segir álag hafa aukist verulega á geðheilbrigðiskerfið.

„Við óttumst að niðurskurðurinn sé kominn fram og vörum við því"

Reynsla annarra þjóða sýni að niðurskurður á stuðningsúrræðum bitni verst á þeim séu veikir fyrir og geti gert vanda þeirra verri. Nú bíði hátt í tuttugu ungmenni í miklum vanda eftir innlögn á BUGL.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.