Innlent

Gylfi ekki á móti almennum leiðréttingum

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.

Forseti Alþýðusambands Íslands kveðst ekki setja sig upp á móti almennum leiðréttingum skulda heimilanna - hann sé hins vegar mótfallinn því að nota lífeyrissparnað landsmanna til að fjármagna leiðréttinguna.

Hagsmunasamtök heimilanna fóru hörðum orðum um Alþýðusambandið eftir fundaherferð síðustu daga um skuldavanda heimilanna. Þau spurðu hvort ríkisstjórnin væri að láta verkalýsforystuna og samtök atvinnulífsins segja sér fyrir verkum - og lýsa yfir vonbrigðum með afstöðu ASÍ til skuldavandans eftir hrunið. Hagsmunasamtökin saka sambandið um auðvaldshyggju, að hafa skipað sér í lið með forkólfum auðvalds og spillingar og tekið skýra afstöðu gegn heimilunum.

ASÍ svarar fullum hálsi í pistli á heimasíðu sinni og segja ýmsa hafa afvegaflutt afstöðu ASÍ undanfarna daga. Þar segir einnig að fullyrðingar um að ASÍ sé á móti lækkun skulda heimilanna séu úr lausu lofti gripnar en það sé óframkvæmanlegt að taka lífeyrissparnað almenns launafólks ófrjálsri hendi til að bera verulega hluta af kostnaði við lækkun skulda.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist ekki mótfallinn almennum leiðréttingum en að þær verði að fjármagna með öðrum hætti. Nefnir hann almennar skattahækkanir sem réttlátari leið til þess en að skerða lífeyrisréttindin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×