Innlent

Vill vita hver mótaði afstöðu Íslands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdis Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vill vita hver ákvað að fulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sæti hjá við atkvæðagreiðslu um ályktunartillögu um að aðgangur að hreinu vatni teljist til mannréttinda. Vigdís hefur lagt fram fyrirspurn þessa efnis sem verður rædd á Alþingi í dag.

Atkvæði voru greidd um tillöguna á Allsherjarþingi í lok júlí. Þá samþykktu 122 ríki ályktunina, enginn var á móti, en 41 sat hjá. Ísland var eitt þeirra, en einnig voru Ástralía, Danmörk, Írland, Ísrael, Japan, Svíþjóð og Bandaríkin, þar á meðal. Í tillögunni er hvatt til þess að ríki og alþjóðastofnanir útvegi fjármagn og fleira, einkum til þróunarríkja, í því skyni að útvega fólki hreint og aðgengilegt drykkjarvatn og hreinlætisaðstöðu.

Eftir að atkvæðagreiðslan fór fram sagðist Mannréttindaskrifstofa Íslands telja að aðgangur að hreinu vatni teljist til mannréttinda. Margrét Steinarsdottir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, sagðist ekki geta tjáð sig um afstöðu stjórnvalda, þar sem rökin fyrir henni lægju ekki fyrir.

Vigdís Hauksdóttir vill líka vita hvort tillagan hafi verið rædd í utanríkismálanefnd áður en til atkvæðagreiðslunnar kom og hvort ekki sé líklegt að ímynd Íslands sem ósnortins, hreins lands, skaðist við þessa ákvörðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×