Innlent

Veggjald í Hvalfjarðargöngum hækkar

Mynd/Pjetur
Veggjald í Hvalfjarðargöngum hækkar um tæplega 13% að jafnaði frá og með 1. febrúar 2010. Gjald fyrir staka ferð í fyrsta gjaldflokki, sem er fyrir ökutæki styttri en sex metrar, fer úr 800 í 900 krónur. Afkoma Spalar sem rekur göngin undanfarin ár kalla á gjaldskrárbreytinguna. Fyrirtækið hefur einu sinni áður hækkað veggjaldið frá því göngin voru opnuð í júlí 1998, að fram kemur í tilkynningu.

Hver ferð áskrifanda að 100 ferðum í fyrsta flokki fer úr 230 í 259 krónur. Inneign áskrifenda minnkar sjálfkrafa við gjaldskrárbreytinguna, það er ónotuðum ferðum fækkar sem svarar til hækkunar veggjaldsins.

„Verðlagsþróun og afkoma Spalar undanfarin tvö ár kalla á gjaldskrárbreytinguna, enda er ljóst að tekjur af veggjaldi hafa rýrnað verulega undanfarin misseri á sama tíma og verðbætur á lán félagsins og flestir rekstrarliðir hafa hækkað," segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að Spölur hafi frá því að göngin voru opnuð fyrir 12 árum einu sinni áður hækkað veggjaldið. Það var í apríl 2001 en þá hækkaði gjaldið um 10%. „Veggjaldið hefur hins vegar verið lækkað fimm sinnum, mest í apríl 2005 þegar verð 100 áskriftarferða fyrir fjölskyldubíla lækkaði um 38%."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×