Enski boltinn

Benitez vill kaupa fimm leikmenn í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez, stjóri Liverpool.
Rafa Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez viðurkenndi eftir að Liverpool datt út í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gær að hann þyrfti að kaupa næstum hálft nýtt byrjunarlið í sumar.

Liverpool vann Atletico Madrid, 2-1, í gær en samanlögð úrslit úr leikjum liðanna var 2-2 og komst því síðarnefnda liðið áfram í úrslitaleikinn gegn Fulham á útivallarmarkinu sem Diego Forlan skoraði í framlengingu leiksins í gær.

Nú er því ljóst að Liverpool vinnur enga titla í ár. Það mun nú reyna að ná fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í síðustu tveimur umferðunum en þar á liðið í harðri baráttu við þrjú önnur lið - Tottenham, Manchester City og Aston Villa.

Takist liðinu ekki að ná fjórða sætinu og tryggja sér þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu er talið óvíst að Rafa Benitez haldi áfram með liðið á næsta tímabili.

„Einhver sagði að við þyrftum fjóra eða fimm nýja leikmenn. Ég er eiginlega sammála því. Það er það sem við þurfum að gera," sagði Benitez eftir leikinn í gær.

„Liverpool er risastórt félag og það hefur ákveðin breyting átt sér stað á síðustu 2-3 árum. Við höfum þurft að koma jafnvægi á bókhaldið og reka félagið út frá þeim forsendum."

„Ég veit ekki hvort það séu til peningar fyrir leikmannakaupum í sumar. Við komumst að því síðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×