Innlent

Hugnast samstarf háskólanna í Borgarfirði

Frá háskólasvæðinu á Bifröst.
Frá háskólasvæðinu á Bifröst. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Sveitarstjórn Borgarbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af framkomnum hugmyndum um innlimun Háskólans á Bifröst í Háskólann í Reykjavík. Tillögurnar fela í sér að háskólanám á Bifröst muni leggjast af og það nám sem eftir stendur mun veikjast verulega, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá sveitarstjórn Borgarbyggðar. Sveitarstjórnin fagnar framkomnum hugmyndum um aukið samstarf háskólanna í Borgarfjarðarhéraði og mun leggja sitt af mörkum til þess að háskólarnir vaxi og dafni.

Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík hafa átt í sameiningarviðræðum í undanfarna mánuði. Í fréttum RÚV um málið í fyrradag kom fram að á meðal þess sem þessar viðræður hafa skilað er að til greina kemur að við sameinguna verði nánast öll háskólakennsla flutt frá Bifröst og til Reykjavíkur. Þetta hafa rektor Háskólans á Bifröst og hollvinasamtök skólans gagnrýnt. Þrátt fyrir það verður viðræðum um mögulega sameiningu haldið áfram.

„Mikill fjöldi námsmanna hefur átt börn í leik- og grunnskólum Borgarbyggðar og ef háskólanám verður flutt úr sveitarfélaginu þá mun það setja starf þessara stofnana í uppnám. Þar fyrir utan hafa nemendur og kennarar við háskólann á Bifröst verið virkir þátttakendur í mannlífi og menningu héraðsins," segir í yfirlýsingunni.

Sveitarstjórn leggur áherslu á að skoðaðir verði vandlega allir möguleikar á að leita annarra leiða til að tryggja öflugt háskólasamfélag í Borgarfirði og bendir sérstaklega á þá möguleika sem felast í aukinni samvinnu háskólanna á Bifröst og Hvanneyri.


Tengdar fréttir

Óásættanlegt að leggja niður háskólastarf á Bifröst

Hollvinasamtök Háskólans á Bifröst leggjast alfarið gegn hugmyndum sem fela í sér að háskólakennsla verði flutt frá Bifröst til Reykjavíkur. Samtökin leggja ríka áherslu á að sameiningarviðræður Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík sem hafa staðið undanfarna mánuði fari fram á jafnræðisgrunni. „Að okkur hálfu er mjög skýrt að það á ekki að leggja Bifröst niður," segir formaður samtakanna.

Afstaða rektors kom mönnum í opna skjöldu

Afstaða Magnúsar Árna Magnússonar, rektors Háskólans á Bifröst, um að slíta eigi viðræðum um sameiningu skólans við Háskólann í Reykjavík, kom stjórnarformönnum skólanna í opna skjöldu. Viðræðum um mögulega sameiningu verður haldið áfram. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá Andrési Magnússyni, formanni stjórnar Háskólans á Bifröst, og Finn Oddssyni, formanni háskólaráðs Háskólans í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×