Enski boltinn

Eiður: Munum gera allt sem við getum til að komast í Meistaradeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Tottenham.
Eiður Smári í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen er í viðtali á heimasíðu Tottenham þar sem hann segir að leikmenn séu harðákveðnir í að ná fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tryggja sér þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Aðeins tvö stig skilja að liðin í 4.-7. sæti en Tottenham er sem stendur í fjórða sætinu og á leik til góða.

„Um þetta snýst fótboltinn," sagði Eiður Smári. „Ég er það heppinn að hafa verið í þessari aðstöðu allan minn feril en hafa verður í huga að margir strákanna hér eru að upplifa þetta í fyrsta skipti. En þeir hafa brugðist vel við."

„Okkur hefur gengið vel síðustu vikurnar. Sigrarnir gegn Arsenal og Chelsea voru frábærir, þá sérstaklega þar sem við spiluðum mjög vel í leikjunum."

„Við eigum nú þrjá leiki eftir og það er í okkar höndum að landa fjórða sætinu."

„Þetta snýst fyrst og fremst um andlegan styrk. Við þurfum að sýna mikinn og sterkan karakter og vera nógu góðir til að taka síðasta skrefið í þessu ferli."

„Verðlaunin eru stór og mikil - sjálf Meistaradeildin. Það er engin keppni stærri eða betri. Við gerum okkur allir grein fyrir því að og við munum gera allt sem við getum til að komast í hana."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×