Lífið

Get him to the Greek: tvær stjörnur

Myndin er með tærnar svona um það bil 1000 kílómetrum á eftir The Hangover sem er skothelt dæmi um vel heppnað flipp eins.
Myndin er með tærnar svona um það bil 1000 kílómetrum á eftir The Hangover sem er skothelt dæmi um vel heppnað flipp eins.
Rokk og rugl

Bíó **

Aðalhlutverk: Russell Brand og Jonah Hill

Leikstjóri: Nicholas Stoller

Aldous Snow er svakalega vinsæl poppstjarna. Eiginkona hans er jafnvel enn vinsælli söngkona og saman tróna þau á toppi tilverunnar, glysgjörn og svona mátulega vitgrönn eins og gengur og gerist með frægt tónlistarfólk. Aldous fer þó fyrir rest flatt á ofmetnaðnum þegar hann gefur út skelfilega lélega plötu sem snarlækkar gengisvísitölu hans.

Glyshjónin gefast í kjölfarið upp á sjö ára edrúmennsku, skilja og henda sér á kaf í dóp og brennivín, hvort í sínu lagi. Eiginkonan fyrrverandi gerist auk þess vergjarnari og tíðari gestur á forsíðum slúðurblaða fyrir val sitt á rekkjunautum en Paris Hilton á meðan Aldous hangir heima á Bretlandi og drekkur og djammar í skjóli fornrar frægðar.

Líða nú ein tíu ár og Aldous er enn við sama heygarðshornið. Þá fær gamall aðdáandi Aldousar, meinleysisgrey og minnipokamaður, þá frábæru hugmynd að setja upp afmælis og endurkomutónleika Aldousar í Los Angeles. Þetta geti skilað útgáfufyrirtækinu fúlgum fjár í endurútgáfum og öðru tilheyrandi.

Fyllibyttan í London fellst á að halda tónleikana og ræfillinn sem fékk hugmyndina að endurreisninni er sendur til Englands að sækja fallna goðið og koma því á tónleikana í tæka tíð.

Þetta er auðvitað ekki heiglum hent enda er alkunna að dópistar og fyllibyttur í neyslu eru upp til hópa óþolandi fólk sem ekki nokkur leið er að eiga við. Blessaður lúðinn sogast því á methraða inn í rokklíferni Aldousar og er farinn að dópa og standa í kynlífi með sexbombum á almenningssalernum alveg á einu augabragði.

Hver uppákoman rekur svo aðra á ferð vitleysinganna tveggja frá London til Los Angeles og myndin öll er ein samhengislítil runa misfyndinna brandara. Sem væri svo sem í góðu lagi ef brandararnir væru góðir en því er nú ekki fyrir að fara. Þetta er mynd sem maður fer í gegnum hálfglottandi og getur með góðum vilja og jákvæðu hugarfari hlegið upphátt svona tvisvar til þrisvar sinnum.

Aðalleikararnir Jonah Hill og Russell Brand eru hins vegar ákaflega sjarmerandi og skemmtilegir og fleyta myndinni ansi langt með sameiginlegu átaki. Hill er sannfærandi og brjóstumkennanlegur lúði og Brand er helvíti hress og skemmtilegur í hlutverki rokkaraklisjunnar frá helvíti. Þó hallar aðeins undan fæti þegar fábjáninn Aldous tekur óvæntan andlegan þroskakipp undir lokin. Ósköp kunnuglegur og útjaskaður endahnútur á þroskasögum aumingja og frekar átakanlegur að þessu sinni enda Brand miklu sleipari í léttu flippi heldur en dramatískum uppgjörum.

Einhverra hluta vegna hefur samt sá misskilningur fengið vængi að Get Him to the Greek sé fyndnasta mynd sumarsins ef ekki ársins hingað til. Þetta stenst enga skoðun þótt þetta sé svo sem allt í lagi og enginn muni drepast úr leiðindum yfir brölti þeirra félaga.

Niðurstaða: Miðlungsfyndin gamanmynd sem flýtur á skemmtilegum aðalleikurum og nokkrum velheppnuðum bröndurum. Bærileg en auðgleymanleg skemmtun sem er með tærnar svona um það bil 1000 kílómetrum á eftir The Hangover sem er skothelt dæmi um vel heppnað flipp eins og þessa mynd langar greinilega til að vera.

Þórarinn Þórarinsson

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.