Enski boltinn

Adebayor, Toure og Viera tjá sig allir um Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frægt „fagn“ Adebayor í leik City gegn Arsenal í haust.
Frægt „fagn“ Adebayor í leik City gegn Arsenal í haust. Nordic Photos / Getty Images

Þeir Emmanuel Adebayor, Kolo Toure og Patrick Vieira tjá sig allir um sitt gamla félag, Arsenal, í enskum fjölmiðlum í dag.

Allir eru þeir á mála hjá Manchester City nú en þessi lið mætast einmitt í ensku úrvalsdeildinni seinni partinn í dag.

Adebayor segir að hann hafi farið frá Arsenal til að eiga bjartari framtíð í fótboltanum.

„Minn metnaður liggur í því að spila með Manchester City í Meistaradeild næsta tímabil," sagði Adebayor. „Ég vildi fá að takast á við nýtt verkefni og því leist mér ekki illa á að fara frá Arsenal. Það er stórt og mikið verkefni í gangi hjá City og kannski verður það allra stærsta verkefnið á næstu leiktíð."

Kolo Toure sagði að honum hefði sinnast við félaga sinn í vörn Arsenal, William Gallas.

„Það var oft misskilningur á milli okkar. Á endanum varð annar okkar að fara og það var ég," sagði Toure. „Sem leikmaður bar ég mikla virðingu fyrir honum þar sem hann er eldri en ég. Í Afríku ber maður virðingu fyrir sér eldri mönnum."

„En ég held að hann hafi misnotað aðstöðu sína. Það leiddi til þess að við hættum að tala saman."

Vieira kom til City frá Juventus í vetur en hann var í níu ár hjá Arsenal. Hann sér eftir því nú að hafa ekki farið til Real Madrid þegar það stóð til boða árið 2004.

„Þetta var mjög flókið mál. Ég var tortrygginn. Mér fannst ótrúlegt hversu litla virðingu Claude Makelele fékk og ég óttaðist að það sama myndi koma fyrir mig."

„En ég hefði átt að fara þangað. Ég sé ekki eftir neinu á mínum ferli en ef ég bæti breytt einu þá væri það þetta - að fara til Madrídar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×