Enski boltinn

Nani og Giggs skutu United á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Giggs og Nani skoruðu mörk United í dag.
Giggs og Nani skoruðu mörk United í dag. Nordic Photos / Getty Images

Manchester United er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-1 sigur á Tottenham á heimavelli í dag.

Ryan Giggs kom United yfir úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik en stuttu síðar jafnaði Ledley King metin fyrir Tottenham.

En þá skoraði Nani glæsilegt mark og fiskaði svo undir lok leiksins vítaspyrnu sem Giggs skoraði úr.

Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á sem varamaður í liði Tottenham á 55. mínútu og komst í eitt ágætt færi í leiknum. Nemanja Vidic sá hins vegar til þess að hann náði ekki skoti að marki.

Fyrri hálfleikur var nokkuð lítilfjörlegur og sérstaklega létu gestirnir lítið af sér kveða.

Seinni hálfleikur var öllu fjörlegri. Víti var dæmt á Benoit Assou-Ekotto á 58. mínútu fyrir að brjóta á Patrice Evra og skoraði Giggs örugglega úr vítinu.

Tottenham var mun líflegra í síðari hálfleik og Eiður Smári átti ágæta innkomu. Það var þó King sem skoraði jöfnunarmarkið með laglegum skalla.

Þegar tíu mínútur voru til leiksloka kom Federico Macheda inn á sem varamaður og hann var ekki lengi að láta til sín taka. Hann átti laglega sendingu inn fyrir vörn Tottenham á Nani. Hann afgreiddi knöttinn einstaklega vel í netið, með því að vippa yfir Gomes í marki gestanna.

Wilson Palacios braut svo á Nani á 86. mínútu og aftur var víti dæmt. Giggs brást ekki heldur bogalistin þá.

United er nú með 79 stig á toppi deildarinnar, tveimur á undan Chelsea sem á leik til góða gegn Stoke á morgun.

Tottenham er enn í fjórða sætinu en getur misst það til Manchester City í dag ef City-mönnum tekst að vinna Arsenal á útivelli í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×