Enski boltinn

Grétar Rafn í byrjunarliði Bolton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson í leik með Bolton gegn Chelsea fyrr í mánuðinum.
Grétar Rafn Steinsson í leik með Bolton gegn Chelsea fyrr í mánuðinum. Nordic Photos / Getty Images

Grétar Rafn Steinsson er í byrjunarliði Bolton sem tekur á móti botnliði ensku úrvalsdeildarinnar, Portsmouth, í dag.

Hermann Hreiðarsson er vitanlega ekki í leikmannahópi Portsmouth þar sem hann á við erfið meiðsli að stríða.

Bolton getur með sigri í dag gulltryggt sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni en liðið er sem stendur í 14. sæti deildarinnar með 35 stig, sjö stigum frá fallsæti.

Wigan og Wolves geta einnig tryggt sæti sín í deildinni með sigrum í sínum leikjum. Wigan mætir West Ham á útivelli og Wolves tekur á móti Blackburn.

West Ham þarf þó nauðsynlega á sigri að halda þar sem liðið er í fjórða neðsta sæti deildarinnar, aðeins þremur stigum á undan Hull sem mætir Sunderland í dag.

Þá fer næstsíðasta umferðin fram í ensku B-deildinni í dag. Newcastle og West Brom eru þegar búin að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni og þá eru Nottingham Forest og Cardiff örugg með sæti í umspilinu.

Leicester, Swansea og Blackpool berjast um hin tvö sætin í umspilinu.

Plymouth og Peterbrough eru þegar fallin úr deildinni en Scunthorpe, Watford, Crystal Palace og Sheffield Wednesday eru öll enn í fallhættu.

Aron Einar Gunnarsson er í byrjunarliði Coventry sem mætir Middlesbrough á útivelli.

Kári Árnason hefur verið frá vegna meiðsla en hann er í byrjunarliði Plymouth sem spilar við Nottingham Forest á útivelli í dag.

Þá mætast Íslendingaliðin Watford og Reading. Heiðar Helguson er í byrjunarliði Watford og Gylfi Sigurðsson sömuleiðis hjá Reading.

Brynjar Björn Gunnarsson er á varamannabekk Reading en Ívar Ingimarsson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson eru ekki í leikmannahópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×