Enski boltinn

Gerrard gaf mark og Chelsea getur orðið meistari í dag

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Drogba fagnar marki sínu.
Drogba fagnar marki sínu. Nordicphotos/Getty

Samsæriskenningasmiðir fengu eitthvað fyrir sinn snúð í sigri Chelsea á Liverpool í dag. Ef Manchester United vinnur ekki Sunderland á eftir verður Chelsea Englandsmeistari í dag.

Chelsea vann 2-0 á Anfield.

Stuðningsmenn Liverpool vilja ekki að Manchester United verði meistari og þar sem Steven Gerrard kom Chelsea á bragðið með því að gefa Lundúnarliðinu mark í fyrri hálfleik heyrist eflaust eitthvað frá stuðningsmönnum United.

Sending Gerrard til baka var ömurleg og Didier Drogba stal boltanum og kom Chelsea yfir. Það átti svo að fá víti undir lok hálfleiksins þegar Kalou var felldur af Lucasi í teignum en Alan Wiley dæmdi ekkert.

Javier Mascherano var skelfilegur í hægri bakvarðarstöðunni hjá Liverpool og liðið virkaði þreytt og ekki hungrað. Hann gerði Frank Lampard réttstæðan í upphafi seinni hálfleiks þegar hann skoraði annað mark Chelsea eftir sendingu frá Anelka.

Leikurinn var raunar jafn framan af en svo dró verulega af liði Liverpool sem spilaði 120 mínútna Evrópuleik á fimmtudaginn. Chelsea-liðið var aftur á móti agað og einbeitt. Aðeins Pepe Reina kom í veg fyrir stærri sigur Chelsea.

Leikurinn fjaraði svo út og Chelsea fagnaði góðum sigri.

Vonir Liverpool um Meistaradeildarsæti eru þar með engar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×