Erlent

Bandaríski herinn hreiðrar um sig

Brennandi kirkja Löggæslumaður á vegum Sameinuðu þjóðanna fylgist með mannaferðum meðan kirkja brennur að baki honum.fréttablaðið/AP
Brennandi kirkja Löggæslumaður á vegum Sameinuðu þjóðanna fylgist með mannaferðum meðan kirkja brennur að baki honum.fréttablaðið/AP

Haítíbúar tóku fyrstu matvæla- og vatnssendingum Bandaríkjahers fagnandi þegar þeim var varpað niður úr þyrlu rétt fyrir utan höfuðborgina Port-au-Prince.

Íbúarnir fögnuðu líka þegar sex bandarískar herþyrlur lentu á lóð hinnar illa skemmdu forsetahallar í borginni og tóku að koma sér þar fyrir.

„Ef þeir vilja, þá geta þeir verið lengur núna en 1915,“ sagði Fede Felissant hárgreiðslumaður, sem fylgdist með. Árið 1915 kom Bandaríkjaher einnig til Haítí og þá liðu 19 ár áður en hann hvarf á braut.

Bandarískir ráðamenn hafa þó fullyrt að koma þeirra til Haítí nú eigi alls ekki að verða upphafið að langvarandi hersetu.

Meira en tvö þúsund bandarískir sjóliðar hafa gengið til liðs við þá þúsund bandarísku hermenn sem fyrir voru á Haítí. Þar eru einnig níu þúsund lögreglumenn og friðargæsluliðar frá Sameinuðu þjóðunum, og von er á 3.500 í viðbót.

Ekki veitir af, því vaxandi óþolinmæði gætir meðal íbúa vegna þess hve hjálpargögn hafa borist hægt til landsins. Aðeins skammt frá forsetahöllinni, þar sem Bandaríkjaher var að koma sér fyrir í gær, fóru hópar fólks um rænandi og ruplandi um miðborgina.

„Svona er þetta bara. Við getum ekkert gert,“ segir Arina Bence lögreglukona, sem reyndi að halda almenningi frá ránssvæðinu til að fólk fari sér ekki að voða.

Á einni hæðinni í borginni lokaði fólk hverfinu af með bílum og ungir menn voru fengnir til að fylgjast með mannaferðum. „Við treystum aldrei stjórnvöldum hér,“ sagði Tatony Vieux, einn íbúa hverfisins. „Aldrei.“

Rúm vika er liðin frá því að jarðskjálfti, sem mældist 7,0 stig, reið yfir Haítí með þeim afleiðingum að stór hluti allra húsa höfuðborgarinnar og sumra nágrannabyggða lagðist í rúst.

Talið er að allt að 200 þúsund manns hafi látið lífið, 250 þúsund hafi hlotið misalvarleg meiðsl og 1,5 milljónir hafi misst heimili sitt. Hjálparstofnanir telja að þriðjungur íbúa landsins, sem alls eru nærri tíu milljónir, þurfi á neyðaraðstoð að halda.

Í gær var enn verið að ná fólki á lífi úr rústunum. Tveimur konum var bjargað úr hruninni háskólabyggingu.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×