Enski boltinn

Markalaust hjá Arsenal og City í leiðinlegum knattspyrnuleik

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Augnablikið þegar mestu lætin voru á vellinum. Adebayor kemur inn á gegn sínum gömlu félögum. Hann setti mark sitt ekki á leikinn, frekar en aðrir leikmenn.
Augnablikið þegar mestu lætin voru á vellinum. Adebayor kemur inn á gegn sínum gömlu félögum. Hann setti mark sitt ekki á leikinn, frekar en aðrir leikmenn. Getty Images
Arsenal og Manchester City gerðu markalaust jafntefli í síðasta leik ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Leikurinn var ævintýralega leiðinlegur.

Fyrri hálfleikurinn var eins leiðinlegir og þeir verða. Fyrsta skotið kom eftir 40 mínútur og það var ekki gott. Markalaust í hálfleik.

Emanuel Adebayor byrjaði á bekknum en kom inn á í seinni hálfleik hjá City gegn sínum gömlu félögum í Arsenal. Hann fékk hressilegt baul í hvert skipti sem hann snerti boltann.

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri. Shay Given varði vel frá Abou Diaby en meiddist í leiðinni. Hann var borinn af velli og fór líklega úr axlarlið. Hann þurfti súrefni á leiðinni útaf og fékk klapp frá áhorfendum en í hans stað kom Gunnar Nielsen, Færeyingurinn knái, inn á í sínum fyrsta leik fyrir City. Hann er jafnframt fyrsti leikmaðurinn frá Færeyjum til að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Bæði lið fengu hálffæri áður en yfir lauk og Mike Dean flautaði leikinn af, áhorfendum til mikillar ánægju.

Sol Campbell átti góðan leik fyrir Arsenal en Fabio Capello var á vellinum. Gárungar telja að Campbell gæti verið að spila sig inn í enska landsliðið fyrir HM en aldursforsetinn í Arsenal hefur leikið vel undanfarið. Ekki eru allir sammála því að Campbell eigi skilið sæti í landsliðinu á nýjan leik en hann spilaði vel í dag.

Það var mikið í húfi fyrir bæði lið, Arsenal á nú ekki lengur möguleika á titlinum en City er einu stigi á eftir Tottenham í keppninni um fjórða sætið. Jafnteflið kom því hvorugu liðinu vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×