Innlent

Efast um siðareglur fyrir forsetann

Jón Ólafsson.
Jón Ólafsson.

Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki og deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, efast um að rétt sé að setja embætti forseta Íslands siðareglur.

Hafinn er undirbúningur að setningu slíkra reglna. Er það gert í framhaldi ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað var um hvernig Ólafur Ragnar Grímsson beitti sér í þágu fyrirtækja í útrás.

„Ég hef efasemdir um að siðareglur sé rétta leiðin,“ segir Jón. Það sé dálítið sérkennileg hugmynd að þjóðhöfðingi setji sjálfum sér siðareglur eða honum séu settar þær. „Forsetinn er kosinn persónulega og hefur ákveðin völd samkvæmt stjórnarskrá. Hefð getur stýrt því hvernig hann notar þessi völd, en að öðru leyti hlýtur túlkun forsetans á umboði sínu að ráða gerðum hans.

Ef hugmyndin er að setja forsetanum siðareglur til að koma böndum á hann er á ferðinni viss misskilningur á tilgangi siðareglna.“

Í rannsóknarskýrslunni var einnig lagt til að settar verði reglur um hlutverk og verkefni forsetans og samskipti hans við önnur ríki. Jón hefur líka efasemdir um slíkar reglur en telur þó að gagnlegt væri og eðlilegt að utanríkisráðuneytið og forsetaembættið hafi verklagsreglur sem tryggja samræmi á milli orða og athafna forsetans og utanríkisstefnunnar hverju sinni.

Jón var í starfshópi sem undirbjó siðareglur fyrir ráðherra og stjórnsýslu ríkisins. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×