Innlent

Þekking ekki með Símagögn undir höndum

Framkvæmdastjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Þekkingar hf. vísar því alfarið á bug að hafa undir höndum viðkvæm gögn í eigu Símans. Forsvarsmenn Símans segja fyrirtækið keppinaut þeirra og fullyrða að starfsmenn þess hafi haldlagt og afritað gögn í húsleit sem þar fór fram um daginn.

Síminn hefur nú stefnt Samkeppniseftirlitinu fyrir að fá starfsmenn Þekkingar hf. til liðs við sig í húsleit sem þar var gerð í síðustu viku. Forstjóri Símans segir þetta óheppilegt sérstaklega þar sem Þekking hf. sé keppinautur þeirra á markaði. Auk þess hafi fyrirtækið kært Símann til Samkeppniseftirlitisins vegna gruns um brot á samkeppnislögum og er kæran enn til meðferðar.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu í gær var fullyrt að starfsmenn Þekkingar hf. hefðu hvergi komið nærri haldlagningu gagna eða efnislegri skoðun tölvugagna heldur hafi hlutverk þeirra einungis falist í tæknilegri aðstoð við afritun gagna.

Samkvæmt haldlagningarskrám sem Síminn sendi fréttastofu sést að starfsmenn Þekkingar hf. kvitta þar undir, tilgreina staðsetningu gagna, tegund þeirra og lýsingu á þeim svo eitthvað sé nefnt. Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Símans, segir þau sýna svart á hvítu að starfsmenn hafi haft aðgang að gögnunum.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitins telur ekkert athugavert við framkvæmd húsleitarinnar. Hlutverk umræddra starfsmanna hafi einungis falist í afritun gagnanna. Þá vísar Stefán Jóhannesson framkvæmdastjóri Þekkingar því alfarið á bug að starfsmenn fyritæksins hafi undir höndum gögn frá Símanum.






Tengdar fréttir

Síminn stefnir Samkeppniseftirlitinu vegna húsleitar

Síminn hf. sakar símafyrirtækið Þekkingu, sem á í samkeppni við Símann á upplýsingatæknimarkaði, um að hafa afritað tölvugögn Símans og Skipta við húsleit sem Samkeppniseftirlitið framkvæmdi í síðustu viku. Þar á Þekking að hafa starfað sem undirverktaki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×