Innlent

Taflmennirnir gætu verið grænlenskir

Ingimar Karl Helgason skrifar

Ekki er loku fyrir það skotið að taflmennirnir frá Ljóðhúsum í Suðureyjum, hafi verið búnir til á Grænlandi.

Við greindum frá því í fréttum stöðvar 2 í gær, að Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur, telur að um níutíu taflmenn úr rostungstönnum hafi verið gerðir hérlendis í kringum árið 1200. Þeir fundust á eynni Ljóðhúsum, undan ströndum Skotlands, árið 1831. Flestir þeirra eru geymdir í British museum og þykja hinar mestu gersemar.

Flestir erlendir fræðimenn hafa hingað til talið að þeir hafi verið búnir til í Noregi, í Þrándheimi, nánar tiltekið, þar sem var erkibiskupsstóll.

Lykillinn í kenningu Guðmundar er biskupinn, en í skák er orðið biskup hvergi notað um samnefndan taflmann nema hér, í færeyjum og á Bretlandseyjum. Guðmundur færir enn fremur rök að því að þessi notkun orðsins biskup, hafi borist úr íslensku í ensku. Þá bendir hann á að ólíklegt sé, miðað við stöðu biskups á skákborðinu, að erkibiskup í Þrándheimi hafi sett sig undir kóng og drottingu, en í öðrum norrænum málum og þýskur heitir hann hlaupari.

En þær hugmyndir að taflmennirnir séu héðan eru ekki alveg nýjar af nálinni.



Helgi Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir í bók sinni Um Haf Innan, sem kom úr fyrir rúmum áratug, að taflmennirnir geti verið héðan, eða frá Grænlandi. Þar var byggð norrænna manna og þaðan voru fluttar rostungstennur og ýmis annar varningur, og sennilega einnig náhvalstennur, sem seldar hafa verið á Englandi og meginlandi Evrópu sem einhyrningshorn. Helgi bendir á að sérstakur litur, á svörtu taflmönnunum, en þessir menn eru raunar litaðir rauðum lit, virðist geta samsvarað sterkum rauðum lit sem notaður var til að lita rostungstennur af Grænlandi.




Tengdar fréttir

Íslensk kona höfundur fyrsta biskupsins í skák

„Íslandssagan er að breytast,“ segir Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur, sem telur að fornir taflmenn sem geymdir eru í breska þjóðminjasafninu, hafi verið skornir út hér á landi, úr rostungstönnum frá Grænlandi. Það muni breyta hugmyndum manna um íslenskar miðaldir. Guðmundur telur sig líka hver bjó mennina til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×