Erlent

Á þriðja tug biðu bana

Harkalegur árekstur Við áreksturinn lyftust fremstu vagnar beggja lestanna upp og brak þeyttist um víðan völl.
fréttablaðið/AP
Harkalegur árekstur Við áreksturinn lyftust fremstu vagnar beggja lestanna upp og brak þeyttist um víðan völl. fréttablaðið/AP

Tvær farþegalestir rákust harkalega á skammt frá Brussel, höfuðborg Belgíu, þegar annarri þeirra var ekið áfram á móti stöðvunarmerki.

Að minnsta kosti 18 manns fórust og 55 særðust, margir mjög illa. Óttast er að allt að 25 manns hafi látið lífið. Áreksturinn olli því að framhliðin á einum lestarvagninum rifnaði af og aðrir vagnar fóru út af sporinu.

Önnur lestin var á leiðinni til Liège en hin til Braine-le-Comte, og rákust þær beint framan á hvor aðra. Við áreksturinn lyftust vagnar beggja lesta upp og eyðilögðu meðal annars rafmagnslínur í loftinu. Svo virðist sem hár steinveggur hafi komið í veg fyrir að brak úr lestunum þeyttist yfir á íbúðarhús í næsta nágrenni.

„Þetta var martröð,“ sagði Christian Wampach, 47 ára farþegi sem þurfti að láta hjúkrunarfólk binda um sár á höfði sér á íþróttavelli, þangað sem minna slasaðir farþegar voru fluttir strax eftir slysið.

„Við hentumst til í meira en fimmtán sekúndur. Margir slösuðust í mínum vagni en ég held að þeir sem létust hafi verið í fremsta vagninum,“ sagði Wampach, sem var í þriðja fremsta vagninum í annarri lestinni.

Óhappið varð um klukkan hálf­níu að staðartíma, eða hálfátta að íslenskum tíma, á lestarstöðinni í Buizingen, úthverfi borgarinnar Halle sem er skammt suðvestur af höfuðborginni Brussel.

Háhraðalestir fyrirtækisins Thalys, sem ganga oft á dag milli Hollands, Belgíu, Frakklands og Þýskalands, nota sömu leið og lestirnar tvær sem rákust á í gær. Ferðir háhraðalestanna féllu því niður fram eftir öllum degi.

Yves Leterme, forsætisráðherra Belgíu, var nýlentur á flugvelli í Pristína í Kósóvó þegar fréttir bárust af lestarslysinu, en hætti við heimsókn sína þangað og var flugvél hans strax snúið við og flogið aftur til Belgíu.

Slysið er það mannskæðasta í Belgíu síðan 1954, en þá fórust tuttugu þýskir fótboltaaðdáendur í lestarslysi skammt frá Leuven og fjörutíu meiddust að auki. Árið 2001 varð einnig alvarlegt lestarslys í Belgíu sem kostaði átta manns lífið.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×